Bændur og framleiðendur

Vínbóndinn er ekki bara einn heldur eru margir góðir bændur á bakvið hann.

ZANOTTO í Veneto

Riccardo Zanotto er búsettur í hjarta Prosecco freyðivínssvæðisins. Hans framleiðsla snýst aðallega um hin léttfreyðandi og heillandi “Col Fondo” vín þar sem bubblurnar verða til með náttúrulegum meðulum. Þau eru all skýjuð með botnfalli sem má annað hvort skilja frá með því að umhella víninu eða, þvert á móti, hrista upp í flöskunni til að fá meiri og sveitalegri karakter.

FARNEA í Veneto

Marco Buratti er sannkallaður smábóndi með aðeins 2 hektara vínlands í þjóðgarðinum Colli Euganei. Eftir að hafa starfað sem kokkur í Nýja Sjálandi snéri hann aftur til Ítalíu fyrir um 15 árum síðan og hóf að framleiða hrein og bein náttúruvín, án aukaefna hvorki úti á vínekru né inni í vínkjallara, ánægjuvín sem umfram allt eiga að vera auðveld til að skola niður og á sanngjörnu verði.

ELISABETTA FORADORI í Trentino

Elisabetta Foradori er mikill frumkvöðull í víngerð á Ítalíu. Biodýnamísk ræktun (lífefld ræktun) og virðingin fyrir náttúrunni er hér í hverju skrefi. Ef það er eitthvað eitt orð sem væri hægt að segja um Foradori vínin þá væri það fágun. Nýlega bætti hún svo við ýmis konar grænmetiræktun, ostagerð ofl. enda er það hjarta bíódýnamískrar hugsunur að vera með fjölþætta ræktun.

JOSKO GRAVNER í Friuli

Josko Gravner er faðir gulvína á Ítalíu. Hann framleiðir mögnuð vín sem þroskast í hálft ár í leirkerjum og fimm ár í eikartunnum og eru ekki sett í sölu fyrr en hafa náð tíunda ári, í fyrsta lagi.

LE COSTE í Lazio

Gianmarco Antonuzzi og Clementine Bouveron rækta garðinn sinn í bænum Gradoli 450 metra hæð fyrir ofan Bolseno vatn steinsnar frá landamærum Toskana þar sem eldfjallajarðvegurinn er sérstaklega ríkur af járni og steinefnum. Blandaður landbúnaður af ýmsu tagi hjálpar enn frekar við að búa til sjálfbært vistkerfi sem vínin eru náttúrulegur hluti af.

VALLI UNITE í Piemonte

Fjölskyldurnar og nágrannir sem standa að baki samstarfsverkefninu telja Valli Unite telja næstum 30 einstaklinga og heildarlandareignin um 100 hektarar. Öll ræktun er lífæn hvort sem það eru vínberin í vínin, ostarnir eða kjötið. Fyrirmyndarsambýli sem á ekki marga sína líka.

CASCINA TAVIJN í Piemonte

Dóttirin Nadia Verrua hefur hins vegar tekið völdin í víngerðinni og fær að hafa þar alveg frjálsar hendur og þar ríkir mikil sköpunargleði. Ársframleiðslan er aðeins um 20.000 flöskur. Vínin eru öll án viðbætts súlfíts. Þau iða af lífi, soldið villt með stóran karakter en líka mjög “djúsí” og svalandi. Eiginlega engu lík.

LA VIALLA í Toskana

La Vialla er myndarbýli ekki langt frá Arezzo í Toskana. Þar er ekki bara stunduð lífræn ræktun heldur lífelfd (biodynamic) ræktun og er býlið með eitt stærsta Demeter vottaða land í Evrópu, en Demeter er alþjóðleg vottun fyrir lífelfda ræktun. Afurðirnar eru nýttar til að framleiða vín, olíur, osta, hunang, edik, sultur, pesto, pasta og margt fleira.

CIRELLI í Abruzzo

Stofnað 2003 af hjónunum Francesco og Michela við þorpið Atri um 8 km frá strönd Adríahafsins. Til að skapa sem heilbrigðast umhverfi er vínræktinni blandað saman við hvítlauksrækt, fíkjur, ólífur og mjöl að ógleymdum gæsunum sem spígspora um vínekrurnar og gefa sinn náttúrulega áburð. Virkilega falleg og stílhrein vín eru framleidd á bænum sem ýmist fá að þroskast í stáltönkum eða í anfóru leirkerjum.

LAMMIDIA í Abruzzo

Lammidia er nýr og agnarsmár vínbóndi ekki langt frá Pescara með framleiðslu upp á aðeins um 15.000 flöskur árlega. Reyndar væri réttara að tala um vínbændur í fleirtölu heldur en einn bónda því tveir félagar stunda víngerðina, Davide og Marco, sem hafa þekkst frá því í leikskóla. Eftir háskóla fóru þeir í sitt hvora áttina en það var ástríðan og áhuginn á náttúruvíngerð sem sameinaði þá aftur undir merki Lammidia.

CANTINA GIARDINO í Campania

Vínbændurnir og hjónin Daniela og Antonio de Gruttola leiða Cantina Giardino, samstarfsverkefni sex vina í Kampanía héraði. Þau leituðu uppi litla vínbændur á svæðinu sem höfðu ræktað sinn gamla vínvið kynslóðum saman á náttúrulegan hátt án aukaefna og hófu samstarf við þá um framleiðslu vína undir merkjum Cantina Giardino. 2010 fundu þau og keyptu eigin vínekrur með hundgömlum vínvið frá því uppúr 1930 sem bættist við framleiðsluna.

ARIANNA OCCHIPINTI á Sikiley

Arianna er ung og öflug víngerðarkona á Sikiley sem hóf eigin vínrækt fyrir 15 árum síðan þá rétt rúmlega tvítug. Hún fór í víngerðarskóla en lærði mest af frænda sínum og öðrum í hennar nærumhverfi sem stunduðu náttúrulega víngerð. Strax frá upphafi hefur Arianna haft sterka sýn á hvað vínin hennar eigi að endurspegla. þau eiga að vera persónuleg, hrein og bein og með sterka tilfinningu fyrir uppruna sínum. Hennar leið að því marki er að gera vín á eins náttúrulegan hátt og er unnt, lífræn, án nokkurra eiturefna, náttúrulega gerjuð, ófilteruð og með littlu viðbættu súlfati.

VALDIBELLA á Sikiley

Það er ekki einn bóndi á Valdibella (Fagradal) heldur margir sem allir vinna saman með það að markmiði að búa til fyrirmyndar samfélag manna og náttúru í eins góðu jafnvægi og er hægt. Hér eru framleiddir lífrænir ávextir, grænmeti, ólífur, hunang og að sjálfsögðu vínberin.

ALCE NERO á ítalíu

Samlag lífrænna bænda víðs vegar á Ítalíu.

SABADI á Sikiley

Bærinn Modica er rómaður fyrir framleiðslu súkkulaðis og þar er Sabadi fremst í flokki. Súkkulaðið er framleitt við lágt hitastig sem gerir það að verkum að öll áferð, bragð og ilmur er ólík hefðbundnu súkkulaði. Hráefnið hjá Sabadi er af hæstu gæðum og öll framleiðslan lífræn.

INFINITY FOODS á Englandi

Infinity Foods fyrirtækið er rekið eftir fallegri hugsjón frá upphafi til enda, hrein og lífræn matvæli auk þess að vera svokallað sameignarfyrirtæki (coop) í eigu starfsmannanna sjálfra. Infinity Foods er í beinu sambandi við lífræna ræktendur víða um heim og velur vandlega það sem þau kaupa hverju sinni, hvort sem það eru hnetur, þurrkaðir ávextir, krydd eða annað.