La Vialla

La Vialla er myndarbýli ekki langt frá Arezzo í Toskana. Þar er ekki bara stunduð lífræn ræktun heldur lífefld (biodynamic) ræktun og er býlið með eitt stærsta Demeter vottaða land í Evrópu, en Demeter er alþjóðleg vottun fyrir lífelfda ræktun. Afurðirnar eru nýttar til að framleiða vín, olíur, osta, hunang, edik, sultur, pesto, pasta og margt fleira.

Hjónin Giuliana og Piere Lo Franco hófu ræktun á La Vialla fyrir um 40 árum síðan og reka býlið enn í dag ásamt þremur sonum. Ævintýrið hófst þegar þau ákváðu að kaupa yfirgefinn bóndabæ, gera hann upp og rækta landið með lífrænum hætti. Þau bættu síðan í safnið fleiri slíkum húsakostum og smám saman stækkaði landið og verkefnið óx. Ræktunin hefur verið lífræn frá upphafi, en slíkt frumkvöðlastarf var ekki endilega metið að verðleikum á þeim tíma. Öll umgjörð er látlaus, hógvær og manneskjuleg. Hráefnið er í fyrirrúmi og vörurnar búnar til svo það njóti sín sem best á einfaldan og “heimilislegan” hátt.

La Vialla selur eingöngu milliliðalaust til viðskiptavina, beint frá bónda, bæði mat og vín. Með öðrum orðum er varan þeirra ekki fáanleg í neinum verslunum. Þeim leist vel á tillögu Vínbóndans að gefa íslenskum viðskiptavinum tækifæri á að kynnast vörunni og gerðu undantekningu frá reglunni.

.