– Hvað eru náttúruvín?

Hrein vín (og óhrein)

Ekki eru öll vín vegan. Sum vín henta ekki einu sinni grænmetisætum.

Náttúruvín eru vín án aukaefna. Það ekki eins sjálfsagt og algengt og maður gæti ímyndað sér. Hugmyndin um vín sem nánast hreina afurð sem lítið hefur verið átt við er nefnilega oft ekki sönn.

Fiskilím, gelatín, kítósan, eggjahvítur og mjólkurprótín; dýraafurðir sem fjarlægja “óæskileg” efni í áferð, lit eða lykt eru óspart notaðar af víniðnaðinum í því skyni að gera vínin “fallegri” og markaðsvænni.

Lammidia Anfora Bianco er gott dæmi um hreint vín, hvorki síað né sigtað og því skýjað, án viðbætts súlfíts eða annarra aukaefna, lífrænt og náttúrulega gerjað. Dvelur með hýðinu 5 daga í gerjuninni svo liturinn verður djúpur og vínið aðeins tannískt (slík hvítvín kallast “orange wine” eða gulvín). Framleitt úr þrúgunni trebbiano, þroskað 10 mánuði í leirkerjum (anfora) áður en sett í flöskur.

Kasein er prótín unnið úr mjólk og oftast notað til að breyta lit hvítvína með því að fjarlægja brúna tóna sem geta stundum birst.

Eggjahvítur, eða efnið albumin sem er unnið úr þeim, er notað til gera vín tært (fjarlægja grugg) og minnka hörð tannín þá sérstaklega í rauðvínum. Eggjahvíturnar falla á botn tanksins/tunnunnar og víninu fleytt ofan af.

Gelatín, unnið úr skinni og beinum spendýra, er notað í svipuðum tilgangi og eggjahvíturnar nema aðallega í hvítvínum.

Fiskilím er unnið úr skinni, uggum og sundmaga fiska, aðallega styrju, notað að mestu í hvítvínum á svipaðan hátt og gelatín.

Kítósan er oft unnið úr skel rækju og svipaðra skeldýra, notað til að fjarlægja óæskilega lykt eða málma.

Flestar þessar aðferðir er leyfðar af þeim stofnunum sem votta lífræna vínframleiðslu í Evrópu og víðar svo lífræn vottun er ekki trygging fyrir því að nokkurt þessara efna hafi verið notað.

Listinn yfir dýraafurðir sem má bæta út í vín er þó bara stuttur í samanburði við heildarlista leyfirlegra aukaefna en meira en 80 efnum má bæta út í vín sem ekki hafa lífræna vottun.

Viðbætt ger til að hefja gerjun (umbreyta sykri þrúgunnar í alkóhól) er normið í víngerð en bannað í náttúruvínum (leyfilegt í lífrænni vottun). Sykur sömuleiðis, en honum er yfirleitt bætt út í vín til að hækka áfengismagnið (algengara á norðlægum slóðum) nú eða bara til að sæta vínið svolítið.

Önnur leyfileg efni eru til dæmis, sítrus sýra (c vítamín), tanníneikarspænirkalíum bísúlfítammóníum súlfítammóníum bísúlfítkalíum metabísúlfítensímþíamín (b1 vítamín), díammóníum fosfat, vínsýraeplasýrasorbínsýrakalíum bíkarbónatkalsíumkarbónatkalíumtartratdímetíl díkarbónatE1212 (PVPP), virk kolefniakasíulím(gum arabic), bentónítkísillbetaglúkanmetatartarsýramannópróteinkoparsítratkoparsúlfít og fleira.

Eina efnið sem sumir náttúruvíngerðarmenn nota í víngerðinni er súlfít en þá í mun minna mæli heldur en almennt gengur og gerist við framleiðslu lífrænt vottaðra vína svo ekki sé minnst á í iðnaðarvínframleiðslu. Mörg þeirra eru þó alveg án viðbætts súlfíts og því ekkert nema hreinn vínsafi.

Meira en 80% þeirra vína sem Vínbóndinn flytur inn eru án viðbætts súlfíts.

Á öllum vínum þarf þó að standa “inniheldur súlfít” vegna þess náttúrulega súlfíts sem verður til við gerjun vína þar sem súlfít getur verið ofnæmisvaldandi, jafnvel þótt það sé í mjög litlum mæli.

Fyrir utan þann haug af aukaefnum sem má bæta út í vín eru ýmsar tækjabrellur sem einnig má nota í því skyni að hanna karakter víns, hækka og lækka alkóhól, konsentrera (t.d. reverse osmosis), skyndi gerilsneiða (hita við 70-80 gráður í 20-30 sekúndur) til að gera vínið stöðugara, skyndi frysta (cryo-extraction) til að auka sætleika vínsafans og margt fleira.

Hrein vín eru vín án óþarfa aukaefna. Hrein vín hafa ekki verið beitt ónauðsynlegum meðulum og skyndilausnum.

Grugg er gott!!

Ofantalið er eingöngu það sem má gera við vín þegar inn í víngerðina er komið. Frá er talin efnanotkun af ýmsu tagi úti á vínekrunni sem óhreinkar jörðina, afurðina og okkur sjálf. Slík efnanotkun setur líka hið náttúrulega jafnvægi úr skorðum og rýrir frjósemi jarðvegarins.

Hrein vín eru ekki síður vín sem eru afurð og afsprengi náttúrulegra ræktunaraðferða.

Hrein vín eru meira berskjölduð og nakin. Þau eru sett fram af meiri heiðarleika og hreinskilni. Minna deyfð, ýkt eða breytt á annan hátt.  Persónuleikinn þeirra endurspeglar því betur uppruna þeirra, sveitina og þrúguna.